krydd_16
krydd_4
top-view-1248955_1280
parsley-2460046_960_720
kryddjurtir

Kryddjurtir hafa þörf fyrir mismunandi vaxtarskilyrði. Þær þrífast yfirleitt best í glugga þar sem þær fá skjól fyrir sólinni þegar hún er sem heitust. Flestar kryddplöntur þola að vera úti á sólríkum stað og í skjóli. Gætið þess að frárennslið sé gott því ræturnar geta fúnað ef moldin er of rök.

Það er tilvalið að setja kryddplöntur í eldhúsgluggann eða í pott við grillið þar sem þær eru við höndina þegar á þarf að halda. Takið kryddpottana með ykkur í sumarbústaðinn eða látið þær í pössun á meðan þið farið í frí þar sem þær eru viðkvæmar fyrir því að þorna.

Í sumarlok er gott að saxa kryddið og setja í poka sem geyma hæfilega skammta fyrir eina máltíð í frystinum.

 

Listi yfir krydd til að hafa inni:

Ananasmynta, basilika, estragon, kóríander, mynta, rósmarín, sítrónumelissa, sítrónutimjan/sítrónublóðberg, súkkulaðiminta.

 

Listi yfir krydd til að hafa úti: 

Dill, graslaukur, ísópur, kerfill, kóríander, oregano/majoram/kryddmæra, steinselja, timjan/blóðberg.

Á myndunum hér fyrir neðan er örlítið sýnishorn af úrvalinu hjá okkur, en sjón er sögu ríkari. 

Verið velkomin í Flóru. 

Basil
Basil

Lýsing: Laufið notað sem krydd. Milt bragð. Hægt að tína af eftir þörfum allt sumarið. Tínið toppsprotana fyrst til þess að plantan verði þéttari. Gott krydd í tómatrétti, í salat, sósur, súpur, pottrétti og kryddsmjör svo eitthvað sé nefnt. Ekki setja basilíku út í fyrr en rétt áður en rétturinn er tilbúinn. Hæð: 30-50 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Hentar best innanhúss, en getur þrifist utandyra ef henni er kippt inn þegar það er útlit fyrir að nóttin verði köld

Dill
Dill

Lýsing: Ung blöð eru skorin af, en toppurinn á að fá að halda sér ef ætlunin er að nýta blómið (t.d. í sultu). Fræ eru sterkari á bragðið. Einær jurt. Hæð: 10-15 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan og skjólgóðan vaxtarstað. Þrífst vel í frjóum og næringarríkum jarðvegi. Þarf mikla vökvun.

Estragon
Estragon

Lýsing: Laufið notað sem krydd. Lauf og toppsprotar er tekið eftir þörfum. Hæð: 25 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Þrífst best í næringarríkum jarðvegi. Það er gott að klippa plöntuna á vorin til að auka vöxt.

Garðablóðberg
Garðablóðberg

Lýsing: Lauf og stönglar er notað sem krydd. Bleik blóm í júní-júlí. Hæð: 10-20 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Þrífst best í þurrum og rýrum jarðvegi. Yfirleitt fjölært.

Graslaukur
Graslaukur

Lýsing: Blómin fjólublá í júní-júlí. Fjölær. Hægt að hafa inni á veturna, en verður að vera úti á sumrin. Það þarf að leyfa plöntunni að visna eða frjósa áður en hún er tekin inn. Inniheldur C-vítamín. Hæð: 20-40 sm. Aðstæður: Harðgerður. Þrífst best í rökum jarðvegi á hlýjum og sólríkum stað. Annað: Kryddjurt. Blöðin notuð til matargerðar. Fjölær.

Fjallasteinselja
Fjallasteinselja

Lýsing: Hægt að nota blöð og stöngla. Það er meira bragð af stönglunum. Gott í salat og sem krydd. Notað ferskt eða fryst. Bragðmeiri en venjuleg steinselja. Hægt að skera af eftir þörfum. Notuð fersk, steikt, soðin, í súpur eða þurrkuð, en það tapast bragð við þurrkunina. Hæð: 30-40 sm. Aðstæður: Harðgerð. Þarf sólríkan vaxtarstað. Þrífst best í næringarríkum og vel framræstum jarðvegi. Þolir illa að þorna. Hentar í matjurtabeð, potta og ker.

Koriander
Koriander

Lýsing: Það er hægt að nota laufin sem krydd mjög fljótt. Skerið plönturnar í september og hengið þær upp á hvolfi yfir poka. Fræin detta fljótlega af. Þurrkuð fræ eru mulin og notuð sem krydd. Kóríander er sterkt á bragðið og því þarf að gæta þess að nota ekki of mikið af því. Hæð: 5-15 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Þrífst best í næringarríkum og vel framræstum jarðvegi.

Lavander
Lavander

Lýsing: Fær fjólublá, ilmandi blóm. Best er að klippa plöntuna niður í apríl. Þurrkuð blóm eru t.d. notuð í ilmpoka og te. Blöðin eru notuð í sósur, á lambakjöt og í pottrétti. Hæð: 30-60 sm. Aðstæður: Þrífst best á sólríkum stað í sendinni og snauðri mold. Fjölær.

Oregano/Kryddmæra
Oregano/Kryddmæra

Lýsing: Lauf og stönglar notað sem krydd. Tínið af plöntunni eftir þörfum. Skerið alla plöntuna í lok sumars og notið þurrkað krydd yfir veturinn. Vinsælt krydd sem hentar í flesta matargerð. Undirstaða í ítölskum og grískum réttum. Ómissandi á pizzur. Góð í salat, tómatrétti, pottrétti, kryddblöndur og te. Þetta krydd er betra á bragðið þurrkað heldur en ferskt. Hæð: 40 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Oregano þarf ekki mikla vökvun. Vökvið þegar moldin er þurr viðkomu

Piparmynta
Piparmynta

Lýsing: Kryddjurt. Rauðfjólublá og ilmandi blöð. Grænmynta er betri sem krydd. Laufið af piparmyntunni er t.d. notað í te og mohito. Þá er piparmynta notuð gegn andremmu, í súkkulaði og til að bragðbæta lyf svo eitthvað sé nefnt. Hæð: 40-60 sm. Aðstæður: Harðgerð blaðplanta. Þarf sólríkan vaxtarstað eða hálfskugga. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi. Þarf töluverða vökvun. Fjölær.

Rósmarin
Rósmarin

Lýsing: Fjólublá blóm í ágúst-september. Blöðin notuð í krydd. Hæð: 50-80 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og næringarríkan jarðveg. Hentar vel í ker í köldum gróðurhúsum.

Salvía
Salvía

Lýsing: Laufið er notað í krydd. Plantan getur lifað veturinn ef hún er á köldum og björtum stað. Hæð: 20-30 sm. Aðstæður: Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Þrífst í flestum vel framræstum jarðvegi og best í djúpri og kalkríkri mold. Annað: Salvía er m.a. notuð í lyfjaframleiðslu og líkjörsgerð.

Sítrónublóðberg
Sítrónublóðberg

Lýsing: Gullbrydduð lauf. Lauf og stönglar er notað sem krydd. Frábært í fiskrétti. Hæð: 20-30 sm. Aðstæður: Harðgert. Þrífst best í þurrum og rýrum jarðvegi.

Sítrónumelissa
Sítrónumelissa

Lýsing: Blöðin notuð sem krydd og í te. Hægt að tína af plöntunni allt sumarið. Milt sítrónubragð. Fjölær Hæð: 20-30 sm. Aðstæður:Þarf sólríkan vaxtarstað og gott skjól. Þrífst best í næringarríkum jarðvegi.

Skessujurt
Skessujurt

Lýsing: Bragðsterk. Það er hægt að nota blöðin sem krydd í súpur, salöt, sósur, pottrétti o.fl.. Fræin eru notuð í ýmsa kjötrétti, pottrétti og súpur. Það er hægt að nota saxaðar rætur í salat og te. Að lokum er hægt að borða stilkana eins og grænmeti. Blöðin ilma. Hæð: 100-150 sm. Aðstæður: Harðgerð. Þríft best á sólríkum vaxtarstað eða hálfskugga og í djúpum og næringarríkum jarðvegi. Flott ein og sér. Getur sáð sér ef fræin eru ekki fjarlægð. Fjölær.

Steinselja
Steinselja

Lýsing: Bragðsterk lauf og stönglar er notað sem krydd. Það er meira bragð af stönglunum. Hægt að skera af eftir þörfum. Notuð fersk, steikt, soðin, í súpur eða þurrkuð, en það tapast bragð við þurrkunina.Tvíær. Hæð: 30-40 sm. Aðstæður: Harðgerð. Þarf sólríkan vaxtarstað. Þrífst best í næringarríkum og vel framræstum jarðvegi. Þolir illa að þorna. Hentar í matjurtabeð, potta og ker. Geymist best við 0-2 °C.